Heilsuráð Lilju Petru

Heilsa og vellíðan

Grænkáls snakk

22. júlí 2011 | Lilja Petra

Hver man ekki eftir grænkáls jafningi úr æsku. Það var hvít sósa með grænkáli út í. Mest af grænkálinu heima hjá okkur kom úr skólagörðunum sem við systkinin fórum í. Ekki fannst mér þessi jafningur spennandi og kynnti börnin mín aldrei fyrir honum.

Á þeim árum sem ég var að vaxa úr grasi var ekki komið í tísku að útbúa þeyting eða boost en auðvelt er að setja grænkál í hann og fá þannig góða næringu.

Í fyrra sá ég þátt í sjónvarpinu um matartilbúning í héraði og fjallaði þátturinn meðal annars um matargerð á Höfn. Þar kom ný hugmynd um notkun grænkáls sem síðan hefur slegið í gegn á mínu heimili.

Í vikunni tók ég snakkið með mér í þriggja daga göngu og var það frábær tilbreyting frá hefðbundnu snakki.
Hér kemur uppskriftin eins og hún er á mínum bæ.

Ferskt grænkál
ólífu eða kókos olía
himalaya salt
rósmarin
kanill

Rífið niður grænkálið og takið af stönglinum. Setjið í ofnskúffu.
Dreifið olíu og kryddi að eigin vali yfir.

Setjið í ofn við um 50-80°C og látið vera inni uns kálið er orðið stökkt.

Setjið í ílát og njótið.

Ég hef sett þetta út á salat en einnig borðað það eins og það kemur fyrir.

Einnig hef ég prófað að gera hið sama við radísu blöð og voru þau ekki síðri en grænkálið.

Næringargildi grænkáls má finna á vef matís.

Það er ríkt af A vítamíni, E vítamíni, kalki, kalíum og C vítamíni svo eitthvað sé nefnt.

Posted in Heilsa, Uppskriftir


(lokað er fyrir ritun ummæla).